Is En No Ru

Hraun á Skaga

Hraun á Skaga er nyrsti bær á Skaga er skilur að Skagafjörð og Húnaflóa. Sama fjölskyldan hefur búið þar á aðra öld og nú er þar þríbýli. Margir landsmenn kannast við bæjarnafnið úr veðurfréttum í útvarpi, en þar hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1942. Árið 2008 dró einnig til tíðinda á Hrauni en þá gekk hvítabjörn á land, settist að í æðarvarpinu og dvaldi þar allt þar til hann var felldur degi seinna. Á Hrauni er stundaður sauðfjárbúskapur ásamt smábátaútgerð en báturinn Sæfari er gerður út frá Skagaströnd. Hlunnindi s.s. veiði í vötnum og úrvinnsla rekaviðar eru og drjúgt búsílag. Æðarræktin er þó verðmætust og hefur verið stunduð þar í nærri 100 ár. Eins og Rögnvaldur Steinsson (1918-2013) minnist á í myndbandinu: "Það var ekkert varp hér þegar faðir minn byrjaði búskap árið 1914. Einn daginn var honum gengið hér út með sjónum og gekk fram á þrjár kollur. Hann fór að taka undan þeim en leyfði þeim að eiga eggin. Þær unguðu allar út og út frá þessu er þetta komið." Það hefur heldur betur fjölgað í varpinu síðan þessar þrjár kollur verptu árið 1914 en nú heimsækja tvö til þrjúþúsund pör varpstöðvarnar árlega. Þetta lýsir einstöku sambandi milli villtra fugla og manna þar sem báðir aðilar njóta góðs af samstarfinu.

Dunninn frá Hrauni    °   

Æðardúninn að gjöf

Æðarfuglinn eyðir mestum hluta ævinnar úti á opnu hafi. Aðeins um varptímann gengur fuglinn á land. Á hverju vori snýr æðurin aftur á sömu slóðirnar á Hrauni þar sem búið er að undirbúa varplandið, setja hey í hreiður, skreyta með flöggum og  skapa verndað umhverfi fyrir villtan fuglinn. Hér getur stærsti andfugl norðurhvels jarðar verpt í friði fyrir ágangi dýra og manna. Þegar kollan hefur verpt þremur til fjórum eggjum losnar um dún á bringu hennar sem hún notar til að einangra eggin. Dúninn er týndur af mikilli gætni úr hreiðrinu, lítið í einu og í lokayfirferðinni er heyi komið fyrir í staðinn. Fuglinn er vanur heimsóknum fólksins og lætur ekki trufla sig af þessum fáu göngum yfir varptímann, en svo kallast það er varpið er leitað skipulega. Þegar unginn yfirgefur hreiðrið liggur afgangsdúnninn eftir handa okkur.

Samvinna fugla og manna

Í hreiðrinu getur æðardúnninn tekið í sig óhreinindi t.d. sand og mosa. Til að útrýma gerlum er hann hitaður í fjóra daga við 130°C. Næst er honum komið fyrir í krafsara, vél sem nær óhreinindum úr og síðan er hann settur í fjaðratínu sem fjarlægir fjaðrirnar úr dúninum. Að lokum er dúnninn yfirfarinn með höndum og tínt úr allt það smákusk sem hefur sloppið í gegn um vélarnar. Í þessu ferli er engum efnum bætt í dúninn frá Hrauni en um 60-70 hreiður þarf í kílóið af fullhreinsuðum dún. Fjölskyldan á Hrauni vinnur saman í þessu ferli. Sæng frá Hrauni er búin til af okkur öllum í sameiningu.

Æðardúnsæng frá Hrauni á Skaga

Æðardúnn er þekktur fyrir ótrúlega einangrunareiginleika. Hann er léttur og mjúkur viðkomu. Dúninn í sæng frá Hrauni á Skaga er 100% náttúruleg afurð og allar sængur eru gæðavottaðar og innsiglaðar af matsmanni svo kaupandi geti verið viss um að rétt magn og hrein gæðavara sé í sænginni. Fyrir pantanir og frekari spurningar vinsamlegast hafið samband við okkur: Merete & Steinn, Hraun á Skaga, 551 Sauðárkrókur, Iceland. info@hraunaskaga.is. 66°7'0”N